Greiðsla eða umbun fyrir þátttöku í rannsókn

Nokkuð ber á því að rannsakendur bjóði þátttakendum í vísindarannsóknum á heilbrigðissviði umbun eða greiðslu fyrir þátttöku í rannsókninni. Nefndin fjallar sérstaklega um þessi tilvik og tekur afstöðu í hverju tilviki.

Almennt er viðurkennt að réttlætanlegt sé að greiða fyrir tíma þátttakenda og endurgreiða útlagðan kostnað sem verður rakinn til þátttökunnar, og að þess sé gætt að umbun eða þóknun sem er í boði hafi ekki bein áhrif á ákvörðun um þátttöku, t.d. þannig að þátttakandi taki áhættu eða leggi á sig óþægindi sem ella hefði ekki verið gert. Sérstaklega þarf að huga að því hvort þátttakendur eru börn eða tekjulágir einstaklingar. Um þetta og fleira er fjallað í grein sem er að finna á heimasíðu nefndarinnar undir liðnum Þátttakendur. Þar undir er flipi sem heitir "Að taka þátt í rannsókn" og einnig hlekkur á grein sem heitir "Um greiðslur fyrir þátttöku í rannsókn".